Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Auðvitað verður Geir Haarde að biðjast lausnar og boða til kosninga

Nú er svo komið, að Geir Haarde forsætisráðherra á óhægt um vik með að þurfa ekki að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og boða í framhaldi af því til alþingiskosninga.

Ríkisstjórn Geirs hefur, eins og menn muna, flotið steinsofandi að feigðarósi og er nú svo komið að ekki verður aftur snúið. Samstarfsflokkur Sjálfstæðismann í ríkisstjórn hefur enda sannað að hann er eins og hvert annað rekald og ótækur í ríkisstjórn. Þegar við bætist, að Geir er farinn að þjóðnýta stórar fjámálastofnanir, þvert ofan í stefnu flokks hans og ríkisstjórnarinnar, er borðliggjandi fyrir hann að efna til kosninga og freista þess að Sjálfstæðiflokkurinn haldi sjó í þeim kosningum og þá ekki síður, að Framsóknarflokkurinn nái vopnum sínum og vinni mikinn kosningasigur, svo unnt sé að þessir tveir lýðræðisflokkar nái að mynda sterka ríkisstjórn svo hægt verði að halda áfram þar sem frá var horfið í samstarfi flokkanna.

Nú er einmitt rétti tíminn til að einhenda sér í stórar virkjanaframkvæmdir til að skapa grunvöll fyrir stóraukinn áliðnað í landinu. Það er það eina sem getur bjargað þjóðinni við þessa erfiðu aðstæður. En til að svo geti orðið verður Sjálfstæðisflokkurinn að losa sig við gungurnar og rugludallana í Samfylkingunni og Framsókn komi sterk inn á nýjan leik.

SvDr


mbl.is Geta treyst styrk Glitnis áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi í hættu og hortugheit kommúnista

Með yfittöku ríkisins á Glitni banka hf. hafa orðið mikil þáttaskil á Íslandi. Nýfrjálshyggjustefna Hannesar Hólmstein, Davíðs Oddssonar og Halldórs
Ásgrímssonar hefur steytt á skeri og brotnar þessa dagana í spón án þess að nokkur geti rönd við reist - því miður.

Það er ekkert gamanmál fyrir okkur sem aðhyllumst alfrjálsan markað, að horfa upp á þetta gerast, sá draumana hrynja, en ríkisafskipti með öll sín boð og bönn halda innreið sína á nýjan leik. Það er sárara en tárum taki. Og við spyrjum hvert annað í örvinglun, hvað hafi eiginlega gerst, hvað hafi klikkað, hverjir hafi brugðist.

Ekki er síður sárt að horfa upp á Davíð Oddsson og Geir Haarde, mestu hugsjónamenn þjóðarinnar hvað frelsi og afnám ríkisafskipta varðar, þurfa að standa að því að beygja af leið og stofna ríkisbanka af því að einhverjir aðrir brugðust.

Og eins og við var að búast, vantar ekki hortugheitin í þessa svokölluðu vinstrimenn í dag. Á stundum sem þessum kemur í ljós hvern mann þeir hafa að geyma í raun og veru. Nú skríða þessi kvikindi undan sauðagærum vinstri grænnar samfylkingar og eru ekkert að fela sitt kommúníska innræti. Það yrði óneitanlega hræðilegt slys, ef þrengingar á fjármálamörkuðum verða til þess að óvinir frelsis og mannréttinda komast til valda. Einræði og stalínismi er það sem vinstrigræna samfylkingin vill, þegar öll kurl eru komin til grafar, þröngva upp á fólk og takist þessu fólki að hrifsa til sín völdin í lýðræðislegum alþingiskosningum fer að verða stutt í Gúlagið.

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins voru birt viðtöl við kommúnistana Steingrím J. Sigfússon og Grétar Þorsteinsson forseta ASÍ, þar sem þeir heimtuðu að yfirmenn Glitnis banka hf. yrðu reknir og sakamálarannsókn færi fram á bankanum. 

það er ljóst, að unnendur frelsishugjónarinnar verða að vera vel á varðbergi á næstunni og standa vel í ístaðið gagnvart niðurrifsöflum kommúnismans, sem telja án nokkurs vafa að nú sé þeirra tími upp runninn og í því sambandi skiptir ekki máli hvort þessir vinstri öfgamenn eru í Samfylkingunni eða Vinstrigrænum.

FrI


mbl.is Ríkið eignast 75% í Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skildi farþegana eftir í Sorpu

Það vakti töluverða athygli í gærkvöldi, þegar Davíð Oddsson ók á brott hafði hann með sér bæði forsætisráðherra og fjámálaráðherra. Blaðamaður Foldarinnar veitti þeim kumpánum eftirför og því honum lék forvitni á að vita hvert för þremenninganna væri heitið. Og Davíð var heldur ekki að tefja sig á að fara neinar krókaleiðir því hann ók beinustu leið suður í Sorpu, en þar losaði hann sig við farþegana og hélt að svo búnu heim til sín. Ekki er vitað hvar Árni Mathiesen og Geir Haarde halda sig nú í morgunsárið, en klukkan hálf fimm í nótt, þegar blaðamaður Foldarinnar fór af vettvangi, voru þeir enn á þeim stað sem Davíð Oddsson skildi þá eftir.

ALy

 

 


mbl.is Ráðamenn funduðu fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náði hann öllum í einu skoti?

Varla líður sá klukkutími að ekki sé einhver skotinn til bana í heiminum. Það telst því hér um bil ekki frásagnarvert þó tveir karlmenn og ein kona hafi verið aflífuð með skotvopni í Ballerup í Danmörku.

Það eina sem heita má athyglisvert við þessa frétt er að fólkið var skotið með haglabyssu. Það leiðir aftur hugan að því hve mörg skot morðinginn þurfti að nota til að koma vilja sínum fram. Úr haglabyssum dreifast litlar blýkúlur í allar áttir, sem gerir að verkum, að vel má hæfa þrjár manneskjur, sem standa í hóp, í einu skoti.

Hvernig sem þessu hefur farið fram í Ballerup, þá væri forvitnilegt að vita hvort glæpamaðurinn náði körlunum og konunni í einu skoti eða fleirum. Hafi hann ná þeim í einu skoti þýðir það minni sóun á veðmætum og byssueigandinn hefur haldið heim á leið með tveim ónotuðum skotum fleiri en hefði hann þurft að eyða einu skoti á mann. Hafa ber í huga, að haglaskot eru dýr og hverjum manni ber að spara þau svo sem kostur er.

 

ALy


mbl.is Þrjú fundust látin í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djöfullinn lifir sem fyrr sínu illa lífi

"Ástölsk kona blindast í þrjá daga á sex daga fresti þar sem augu hennar lokast ósálfrátt og hún getur ekki opnað þau aftur." Á þessa leið hefst frétt á mbl.is. Í sömu frétt er leitt líkum að því að kona þessi sé með "dularfullan" sjúkdóm.

Ekki er þó sjúkdómur þessi dularfyllri en svo, að augljóst má vera að konan er haldin illum anda; anda sem á sín óðul í ríka myrkranna. Það kunnara en frá þurfi að segja, að Djöfullinn lifir sem fyrr sínu illa lífi og er síður en svo á undanhaldi, þrátt fyrir tækniframfarir og síaukna háskólamenntun á Vesturlöndum.

Og takið eftir, að sú konan sem hér um ræðir býr í Ástralíu. Það er varla tililviljun. Sá mikli kirkjufaðir, Ágústínus, þvertekur fyrir í sínum óskeikulu fræðum, að svokallaðir andfætlingar séu ekki til og þar með er ekki lengur grundvöllur fyrir tilvist Ástralíu þessarar sem svo er nefnd. Allt tal um Ástralíu og andfætlinga er þar af leiðandi uppspuni sem Djöfullinn hefir sáð í huga andvaralausra manna. 

Hefði þessi hálfblinda manneskja átt heima í Palestínu á dögum frelsara vors, hefði hann af kærleik sínum án efa lagt yfir konuna hendur og rekið út af henni hinn illa anda og augu hennar hefðu haldist opin ævina á enda. En fyrst þessi auma systir okkar er í Ástralíu eru henni allar bjargir bannaðar. Þar í landi sem ekki skín annað ljós en villuljós hins illa er og heldur engrar lækningar að vænta.

 

Í Guðs friði.

SrB 


mbl.is Sjúkdómur veldur blindu í þrjá daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moldviðri hefndarinnar

Það hefir löngum verið plagsiður ýmissa smákónga sem trúað hefir verið fyrir ríkistofnunum að hafa í engu þann fjarhagsramma sem þeim hefir verið skammtaður af Alþingi. Þessháttar menn stofna óhikað við að stofna til fárútláta langt um það sem þeim var ætlaður. Þegar allt er síðan komið í óefni, verður Alþingi að koma þessum mönnum og stofnun þeirra til bjargar með aukafjármagni. En hinir eyðslusömu smákóngar kunna aldrei að sjá að sér og halda áfram að vaða óráðsíuelginn ár eftir ár og skáka í því skjóli að ríkisvaldið sýni þeim óendanlegt langlundargeð.

Loks kom að því, að Björn Bjarnason ráðherra dóms- og kirkjumála, tók af skarið og sýndi einum af undirsátum sínum í tvo heimana. Hann auglýsti starf lögreglustjóra Suðurnesja laust til umsóknar því honum misbauð peningaleg framúrkeyrsla embættisins. Auðvitað tók lögreglustjórinn röggsemi ráðherra óstinnt upp og efndi fjölmiðlafárs í þeirri von að honum tækist að espa óupplýsta landsmenn upp á móti dóms- og kirkumálaráðherra. Og það hefur lögreglustjóranum tekist að hluta. Í moldviðri síðustu daga hafa þó nokkrir óboðnir, fljótfærnir álitsgjafar látið í það skína, að Björn Bjarnason ætti að segja af sér ráðherradómi fyrir það eitt að freista þess að stemma stigu við óábyrgu bruðli með opinbert fé sem stofnað er til í bága við fjárlög ríkisins. 

Jóhann R. Benediktsson kaus að virða að vettugi umvandanir yfirboðara síns og hélt til streitu að frara með sitt embætti fram úr fjárlögum. Þegar honum varð ljóst að hann kæmist ekki upp með iðju sína lengur lét hann sér ekki nægja að hverfa á braut einn síns liðs, heldur drá hann með sér í fallinu þrjá veikgeðja undirmenn sína. Vart þarf að fjölyrða um hvað að baki liggur slíkri hefndaraðgerð og varla þakkar almenningur á Suðurnesjum fráfarandi lögreglustjóra tilraun hans til að skaða löggæsluna á svæðinu meir en tilefnið gefur til kynna.

En þrátt fyrir allt verðum við breyskir menn að fyrirgefa Jóhanni R. Benediktssyni gönuhlaupin og minnast hans af einlægni í bænum vorum. Eða eins og Jesús Kristur sagði: "Ef náungi þinn gefur þér löðrung, þá skaltu ekki reiðast, heldur bjóða honum hinn vangann." Drottinn vakir ávallt og eilíflega yfir hjörð sinni og engum mun takast að fara á bak við hann, eða brjóta hans boðorð, án þess að hann taki ekki eftir því.

Í Guðs friði.

 SrB 


mbl.is Stóryrði og hrakspár Jóhanns „óvenjulegar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband